Ferill 320. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 320 . mál.


Nd.

888. Nefndarálit



um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.

Frá 2. minni hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Frumvarpið um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri er að meginstefnu það sama og lagt var fram á 110. löggjafarþingi 1987 1988 af ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar og samið hafði verið af nefnd sem hann skipaði haustið 1987. Áður hafði þáverandi viðskiptaráðherra, Matthías Bjarnason, látið semja ítarlega skýrslu um erlenda fjárfestingu og íslenskt atvinnulíf sem lögð var fyrir Alþingi á 109. löggjafarþingi 1986 1987. Það hafa því fyrst og fremst verið sjálfstæðismenn sem haft hafa frumkvæði að því að breyta úreltum og sundurleitum lagaákvæðum um erlenda fjárfestingu og færa til samræmis við það víðtæka frelsi sem helstu viðskiptaþjóðir okkar hafa tekið upp á þessu sviði.
     Ekki þarf að fara mörgum orðum um það af hverju samstarf við erlenda aðila er heppilegt og nauðsynlegt. Með því getur áhættufé komið í auknum mæli í stað lánsfjár. Tækniþekking flyst til landsins og nýir möguleikar opnast við markaðsfærslu erlendis. Hægt er að ráðast í verkefni sem Íslendingar hafa ekki bolmagn til að framkvæma upp á eigin spýtur. Æskilegt er að reglur um fjárfestingar erlendra aðila séu eins einfaldar og skýrar og unnt er. Vald stjórnvalda til að leyfa eða banna eiga að vera takmörkuð.
     Samningar um Evrópskt efnahagssvæði standa nú yfir og styttist í að sjái fyrir endann á þeim. Í þeim samningum er gert ráð fyrir víðtæku frelsi til fjármagnsflutninga og fjárfestinga. Án þess að enn sé endanlega ákveðið hvað standi í samningnum um þessi atriði er ljóst að frumvarp ríkisstjórnarinnar gengur almennt séð ekki eins langt og þar er gert ráð fyrir, a.m.k. að því er varðar fjárfestingar aðila frá EES - ríkjum. Er þá ekki átt við sjávarútveginn því að enn er ósamið um með hvaða hætti hann verður meðhöndlaður í samningnum og fjárfestingar innan hans.
     Flestir umsagnaraðilar vilja opna meira fyrir erlendar fjárfestingar en ráð er fyrir gert í frumvörpum ríkisstjórnarinnar.
     Annar minni hl. nefndarinnar flytur breytingartillögur á sérstöku þingskjali. Breytingartillögurnar bera þess merki að frumvarpið kom seint fram og að tími til þess að flytja ítarlegar tillögur var skammur. Hér á eftir verður gerð örstutt grein fyrir breytingartillögunum.
     Skipan sú sem frumvarpið gerir ráð fyrir að gildi um fjárfestingar erlendra aðila í fiskvinnslu er óheppileg. Færa má rök að því að skynsamlegt sé að fá erlent áhættufé í auknum mæli inn í fiskvinnsluna. Sundurgreining sú sem frumvarpið gerir ráð fyrir milli „frumvinnslu“ og „fullvinnslu“ er nánast óframkvæmanleg. Reyking, súrsun, niðurlagning og niðursuða er ótvíræður „iðnaður“, enda flokkaður með matvælaiðnaði en ekki fiskvinnslu í opinberum flokkunum. Nú er það svo að niðursoðnar og niðurlagðar sjávarafurðir eru með því fyrsta sem fram kom innan íslensks matvælaiðnaðar á sviði fullvinnslu. Lagmeti (sem er samheiti þessara afurða) er í allflestum tilfellum pakkað í neytendaumbúðir til dreifingar í verslanir. Starfsemi af þessu tagi er ekki hægt að flokka með frumvinnslu sjávarafurða. Þá verður að telja mjög óheppilegt að reyking, mjölvinnsla og bræðsla sé hér undanskilin. Lagt er til að súrsun, niðurlagning og niðursuða, reyking, bræðsla og mjölvinnsla falli ekki undir takmarkanir frumvarpsins og að fjárfestingar erlendra aðila í þessum greinum verði með sama hætti og í öðrum iðnaði.
     Lagt er til að fellt verði niður ákvæði sem takmarkar erlenda fjárfestingu í flugrekstri við 49%. Ekki verður séð hvaða hagsmunum þessi takmörkun á að þjóna.
     Þá er lagt til að í stað þess að takmarka eignarhald erlendra aðila í íslenskum viðskiptabönkum við 25% verði þeim veitt ótakmörkuð heimild í áföngum. Ekki verður séð að nauðsyn beri til að taka upp strangar reglur í þessum efnum varðandi hlutafélagsbanka sem ganga stórum lengra en almennar reglur sem gilda eiga um fyrirtæki á sviði fjármagnsþjónustu í víðasta skilningi þess orðs, t.d. verðbréfafyrirtæki, vátryggingafélög o.s.frv. Því er lagt til að sömu reglur skuli gilda um hlutafélagabanka og önnur fyrirtæki, en þetta verði þó gert í áföngum.
     Í þriðju breytingartillögunni er lagt til að takmörkun sú, sem frumvarpið gerir ráð fyrir á heildarfjárfestingu erlends aðila á ári, verði rýmkuð úr 250 millj. kr. í 1.000 millj. kr. Þá er lagt til að þau ákvæði, sem lúta að takmörkun við fjórðung af hverri atvinnugrein samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar, verði felld í burtu í heilu lagi. Óframkvæmanlegt er að meta þessa hluti eða draga skýrar markalínur milli atvinnugreina. Þá er öldungis ótækt að löggjafinn framselji vald í hendur Þjóðhagsstofnunar með þeim hætti sem ráð er fyrir gert í frumvarpinu.
     Loks er lagt til að 10. gr. um pólitíska eftirlitsnefnd verði felld niður. Eins og greinin er úr garði gerð getur hún aldrei valdið neinu nema vandræðum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að nefndin sé valin út frá pólitískum sjónarmiðum en ekki faglegum. Þetta getur leitt til þess að framkvæmd laganna verði breytileg frá einum tíma til annars eftir því hvernig pólitískir vindar blása. Slíkt er afar óæskilegt því að þeir sem vilja fjárfesta óttast óstöðugleika mest af öllu. Þeir vilja skýrar og staðfastar reglur. Í öðru lagi eru þau sjónarmið, sem ætlast er til að nefndin hafi til hliðsjónar við störf sín, svo loðin og teygjanleg að ekki er boðlegt að binda slíkt í lagatexta. Hvenær ógnar fjárfesting öryggi landsins? Hvað eru óæskileg áhrif? Mat á þessu býður upp á hreinar geðþóttaákvarðanir. Þess vegna er lagt til að greinin verði felld niður í heild sinni.
     Annar minni hl. styður frumvarpið og telur það vera skref í rétta átt. Full ástæða er þó til að benda á að öll efnisatriði frumvarpsins verða aftur til skoðunar ef Íslendingar taka þátt í samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið.

Alþingi, 12. mars 1991.



Friðrik Sophusson,


frsm.

Matthías Bjarnason.